Í sjö mánaða bann fyrir að brjóta sóttvarnareglur

Leikmenn Lazio fagna marki í leik í ítölsku A-deildinni á …
Leikmenn Lazio fagna marki í leik í ítölsku A-deildinni á dögunum. AFP

Ítalska knattspyrnusambandið hefur úrskurðað Claudio Lotito, forseta ítalska liðsins Lazio, í sjö mánaða bann fyrir að brjóta sóttvarnareglur í tengslum við kórónuveirufaraldurinn. Þá var félagið sektað um 150.000 evrur.

Samkvæmt niðurstöðum rannsóknar á vegum knattspyrnusambandsins tilkynntu forsvarsmenn Lazio heilbrigðisyfirvöldum ekki um jákvæðar niðurstöður leikmanna úr skimunum fyrir veirunni.

Þar að auki leyfði félagið þremur leikmönnum að taka þátt á æfingu þrátt fyrir að þeir hafi greinst smitaðir.

Þá tóku tveir smitaðir einkennalausir leikmenn þátt í leik þegar þeir áttu að vera í einangrun.

Lotito var ekki sá eini sem var úrskurðaður í bann. Tveir læknar félagsins voru úrskurðaðir í árs bann hvor.

Forsvarsmenn Lazio hafa sagst ætla að áfrýja dómi knattspyrnusambandsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert