Jökull Andrésson átti góðan leik og hélt marki sínu hreinu þegar lið hans Exeter bar sigurorð af Salford City með minnsta mun í D-deildinni á Englandi í dag.
Matt Jay skoraði sigurmark leiksins eftir rúmlega hálftíma leik.
Salford, sem er í eigu fyrrverandi leikmanna Manchester United, kenndra við '92-árganginn, þjarmaði að marki Exeter, þá sérstaklega í síðari hálfleiknum, en Jökull skellti í lás og varði þrjú skot ásamt því að grípa oft og tíðum vel inn í. Lokatölur því 1:0.
Exeter er í harðri baráttu um að komast í umspilssæti og er eftir sigurinn í 8. sæti, einu stigi frá Newport County í 7. sæti, sem er síðasta umspilssætið.