Evrópumeistarar Portúgals töpuðu niður tveggja marka forskoti gegn Serbíu í undankeppni heimsmeistaramóts karla í fótbolta í Belgrad í kvöld.
Diogo Jota, leikmaður Liverpool, var í miklu stuði í fyrri hálfleik, en hann kom Portúgal yfir á 11. mínútu, áður en hann breytti stöðunni í 2:0 eftir rúmlega hálftíma leik. Serbía neitaði að gefast upp og Aleksandar Mitrovic minnkaði muninn strax í upphafi seinni hálfleiks og Filip Kostic jafnaði í 2:2 á 60. mínútu.
Það urðu lokatölur leiksins og kom rautt spjald á Nikola Milenkovic í uppbótartíma ekki að sök fyrir Serba. Liðin eru saman á toppi riðilsins með fjögur stig. Lúxemborg er þar á eftir með þrjú stig eftir óvæntan 1:0-útisigur á Írlandi þar sem Gerson Rodrigues skoraði sigurmarkið á 85. mínútu.
Þá þurfti Belgía að sætta sig við eitt stig er liðið heimsótti Tékkland, en lokatölur urðu 1:1. Lukas Provod kom Tékklandi óvænt yfir á 50. mínútu en tíu mínútum síðar jafnaði Romelu Lukaku og reyndist það síðasta mark leiksins. Liðin eru saman á toppi E-riðils með fjögur stig hvort.
Þá gerðu Slóvakía og Malta jafntefli, 2:2, í Slóvakíu. Malta komst í 2:0 í fyrri hálfleik en Slóvakar skoruðu tvö mörk í seinni hálfleik og þar við sat.