Rússar og Svartfellingar með fullt hús stiga

Artem Dzyuba skoraði bæði mörk Rússlands í sigrinum gegn Slóveníu.
Artem Dzyuba skoraði bæði mörk Rússlands í sigrinum gegn Slóveníu. AFP

Rússland vann sterkan 2:1-sigur gegn Slóveníu í annarri umferð H-riðils undankepnni HM 2022 í dag. Á sama tíma vann Svartfjallaland 4:1-sigur gegn Gíbraltar í G-riðli. Bæði lið eru með fullt hús stiga í riðlum sínum.

Öll þrjú mörkin í leik Rússa og Slóvena komu á 10 mínútna kafla í fyrri hálfleik. Artem Dzyuba, sóknarmaður Rússlands, skoraði fyrsta mark leiksins á 26. mínútu með skoti af stuttu færi eftir laglegan undirbúning Dalers Kuzyaevs.

Fyrirliðinn Dzyuba var aftur á ferðinni á 35. mínútu þegar hann var fljótur að átta sig og fylgdi eftir þrumuskoti Alexander Golovins í þverslána með því að skora aftur af stuttu færi.

Aðeins mínútu síðar minnkaði Slóvenía muninn. Þar var að verki Josip Ilicic með glæsilegu skoti og staðan því orðin 2:1. Það voru hálfleikstölur og sömuleiðis lokatölur.

Rússland er þar með á toppi H-riðilsins með sex stig eftir tvo leiki.

Svartfjallaland lenti í smá vandræðum með smáþjóð Gíbraltar. Eftir að hafa komist yfir með marki Fatos Beqirajs á 26. mínútu jafnaði Gíbraltar aðeins fjórum mínutum síðar með marki Reece Styche úr vítaspyrnu.

Skömmu fyrir hálfleik kom Marko Simic Svartfellingum yfir að nýju og staðan því 2:1 í hálfleik.

Í síðari hálfleiknum skoruðu svo Zarko Tomasevic og Stevan Jovetic og komu þar með Svartfellingum í 4:1, sem voru lokatölur.

Svartfjallaland er því á toppi G-riðilsins með sex stig eftir tvo leiki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert