Þrjú rauð spjöld litu dagsins ljós er Spánn og Ítalía mættust á Evrópumóti U21 árs liða karla í fótbolta í Slóveníu í dag. Mörkin stóðu hinsvegar á sér því markalaust jafntefli varð staðreynd.
Gianluca Scamacca í ítalska liðinu var fyrstur að næla sér í rautt spjald þegar hann fékk tvö gul spjöld með stuttu millibili skömmu fyrir leikslok. Aðeins mínútu síðar fékk Spánverjinn Oscar Mingueza beint rautt spjald og strax í kjölfarið fékk Ítalinn Nicoló Rovella sitt annað gula spjald.
Spánn er á toppi riðilsins með fjögur stig og Ítalía í þriðja sæti með tvö stig.
Í öðrum stórleik skildu Þýskaland og Holland jöfn, 1:1. Justin Kluivert kom Hollandi yfir á 48. mínútu en Lukas Nmecha jafnaði á 84. mínútu og þar við sat. Þýskaland er með fjögur stig í toppsæti riðilsins og Holland í þriðja með tvö stig.