Norður-Makedónía vann 5:0-stórsigur á Liechtenstein í J-riðli undankeppni HM í knattspyrnu, riðli Íslands, í Skopje í kvöld.
Liechtenstein tók þar með botnsæti riðilsins af Íslandi á markatölu. Enis Bardhi kom heimamönnum í forystu með eina marki fyrri hálfleiksins á 7. mínútu. Aleksandar Trajkovsvki skoraði svo tvö mörk með stuttu millibili eftir hlé og þeir Eljif Elmas og Illija Nestorovski bættu við mörkum.
Þá eru Þjóðverjar með fullt hús stiga, ásamt Armeníu, eftir 1:0-útisigur gegn Rúmeníu í Búkarest. Serge Gnabry skoraði sigurmarkið á 16. mínútu.
Þýskaland og Armenía eru því með sex stig eftir fyrstu tvær umferðir undankeppninnar en Norður-Makedónía og Rúmenía eru með þrjú stig hvor. Ísland og Liechtenstein reka lestina með engin stig.