England er með fullt hús stiga eftir tvo leiki í I-riðli í undankeppni HM karla í fótbolta eftir 2:0-sigur á Albaníu á útivelli í kvöld.
Harry Kane kom Englandi yfir á 38. mínútu eftir stoðsendingu frá Luke Shaw og Mason Mount bætti við öðru marki á 63. mínútu og tryggði enska liðinu 2:0-sigur.
Spánn þurfti að hafa mikið fyrir 2:1-sigri á útivelli gegn Georgíu þar sem sigurmarkið kom í uppbótartíma. Khvicha Kvaratskhelia kom Georgíu yfir á 43. mínútu og var staðan óvænt 1:0, Georgíu í vil, í hálfleik.
Ferrán Torres jafnaði metin á 56. mínútu áður en varamaðurinn Dani Olmo skoraði markið í uppbótartíma. Spánn er með fjögur stig eftir tvo leiki en Georgía án stiga.
Þá fóru Danir á kostum gegn Moldóvu á heimavelli og skoruðu átta mörk þar sem lokatölur voru 8:0. Mikkel Damsgaard og Kasper Dolberg skoruðu tvö mörk hvor og þeir Jens Larsen, Mathias Jensen, Robert Skov og Marcus Ingvartsen skoruðu einnig. Danir eru í toppsæti F-riðils með fullt hús stiga eftir tvo leiki.