Daniel Sturridge, fyrrverandi framherji Liverpool í ensku úrvalsdeildinni, gæti verið á leið í bandarísku MLS-deildina í knattspyrnu.
Það eru ensk götublöð sem greina frá þessu en DC United og Inter Miami hafa bæði mikinn áhuga á leikmanninum.
Sturridge, sem er 31 árs gamall, er án félags þessa stundina en hann lék síðast með Trabzonspor í tyrknesku úrvalsdeildinni þar sem hann skoraði sjö mörk í sextán leikjum.
Framherjinn var úrskurðaður í fjögurra mánaða keppnisbann fyrir brot á veðmálareglum í mars 2020.
Sturridge lék 26 landsleiki fyrir England á árunum 2011 til ársins 2017 þar sem hann skoraði átta mörk.