Englendingar losna við Lewandowski

Robert Lewandowski, til vinstri, fagnar öðru marka sinna gegn Andorra …
Robert Lewandowski, til vinstri, fagnar öðru marka sinna gegn Andorra í gær. AFP

Pólverjinn Robert Lewandowski, sem af mörgum er talinn einn allrabesti knattspyrnumaður heims um þessar mundir, verður ekki með Pólverjum þegar þeir mæta Englendingum á Wembley í undankeppni heimsmeistaramótsins á miðvikudagskvöldið.

Lewandowski hefur skorað 42 mörk fyrir Evrópumeistara Bayern München á þessu keppnistímabili og gerði tvö marka Pólverja þegar þeir sigruðu Andorra 3:0 í undankeppni HM í gær. Hann meiddist hinsvegar á hné eftir klukkutíma leik.

Meiðslin eru ekki alvarleg en talið er að hann verði frá keppni í tíu daga og pólska knattspyrnusambandið staðfesti í dag að hann yrði ekki með í London. Ekki yrði tekin nein áhætta með Lewandowski, ekki síst vegna þess að stutt væri í úrslitakeppni EM í sumar.

Lewandowski, sem hefur skorað 66 mörk í 118 landsleikjum fyrir Pólland, mun þá einnig missa af stórleik Bayern og RB Leipzig í þýsku 1. deildinni um næstu helgi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert