Enska knattspyrnuliðið Liverpool er komið langt með að tryggja sér þjónustu franska varnarmannsins Ibrahima Konaté, sem leikur með þýska liðinu RB Leipzig.
David Ornstein, íþróttablaðamaður hjá The Athletic, greinir frá þessu í dag. Hann segir Liverpool vera að klára kaupin á hinum stóra og stæðilega miðverði og kemur hann til með að ganga til liðs við Englandsmeistarana í sumar.
Önnur lið hafa sýnt Konaté áhuga en Liverpool er sem áður segir komið langt með að ganga frá kaupunum.
Leipzig er sagt hafa engan áhuga á að selja Konaté en hann er með klásúlu í samningi sínum sem kveður á um að ef lið býður rúmar 34 milljónir punda í hann verður Leipzig að samþykkja tilboðið, og mun Liverpool virkja þessa klásúlu.
Konaté er 21 árs gamall og hefur myndað öflugt miðvarðapar með landa sínum Dayot Upamecano, sem gengur til liðs við Bayern München í sumar, undanfarin tímabil.
Konaté er um þessar mundir með franska U21 árs landsliðinu í úrslitakeppni EM og mun væntanlega vera í byrjunarliðinu þegar það mætir íslenska landsliðinu í lokaleik C-riðilsins á miðvikudaginn.