Ari Freyr Skúlason landsliðsmaður í knattspyrnu er á leið til Svíþjóðar á ný en Norrköping tilkynnti fyrir stundu að félagið hefði samið við Íslendinginn.
Ari er að ljúka sínu öðru tímabili með Oostende í Belgíu en liðið er þar í toppbaráttu þegar úrslitakeppnin er að hefjast.
Hann lék áður í Svíþjóð á árunum 2006 til 2013, með Häcken og Sundsvall, en síðan með OB í Danmörku og Lokeren í Belgíu áður en hann fór til Oostende.
Ari, sem er 32 ára gamall, er með íslenska landsliðinu í Liechtenstein og lék sinn 79. landsleik gegn Armeníu á sunnudaginn. Hann er einn reyndasti knattspyrnumaður Íslands í dag og lék fyrir skömmu sinn 400. deildaleik á ferlinum.
Richard Norling þjálfari Norrköping segir við Fotbollskanalen að Ari sé nákvæmlega leikmaðurinn sem liðið hafi vantað. Hann sé með gríðarlega reynslu, sé íslenskur landsliðsmaður og hafi lengi spilað á háu stigi í Belgíu. Leiðtogahæfileikar hans eigi líka eftir að nýtast Norrköping vel.
Norling sagðist ennfremur horfa til Ara sem miðjumanns, enda þótt hann hefði mikið spilað sem bakvörður og kantmaður. „Þar sem margir hafa augastað á Ísaki Bergmanni Jóhannessyni er ljóst að Ari getur bæði verið góð lausn fyrir okkur til skamms og langs tíma," sagði Norling.
Ísak Bergmann var lykilmaður í liði Norrköping á síðasta tímabili, Finnur Tómas Pálmason kom til félagsins frá KR í vetur og þá er Oliver Stefánsson, átján ára varnarmaður frá Akranesi, líka í leikmannahópi Norrköping.