Þýska karlalandsliðið í knattspyrnu tapaði sínum fyrsta leik í undankeppni HM í 20 ár í gærkvöldi þegar það laut afar óvænt í lægra haldi, 1:2, á heimavelli gegn Norður-Makedóníu í J-riðlinum, riðli Íslands.
Þýska landsliðið tapaði síðast árið 2001, einnig á heimavelli, þegar það steinlá 1:5 gegn Englandi, í undankeppni HM.
Síðan þá hafði liðið unnið 30 leiki, gert fimm jafntefli og tapað engum í undankeppninni þar til Norður-Makedónía skellti þeim í gærkvöldi.
Þessi sigur kemur sér illa fyrir Ísland þar sem Norður-Makedónía kom sér í góða stöðu í öðru sæti riðilsins með 6 stig, jafnmörg og Þýskaland í þriðja sæti, á meðan Armenía er með fullt hús stiga á toppnum, 9 stig eftir leikina þrjá í landsleikjaglugganum sem lauk í gær.
Á meðan eru Rúmenía og Ísland með 3 stig í fjórða og fimmta sæti riðilsins, og því ljóst að erfitt verkefni bíður íslenska liðsins ætli það sér að ná öðru sæti riðilsins, sem er umspilssæti.