Daniel Agger, fyrrverandi leikmaður enska knattspyrnuliðsins Liverpool og danska landsliðsins, mun taka við þjálfarastöðunni hjá danska B-deildarliðinu HB Köge í sumar.
Agger, sem er 36 ára og hætti knattspyrnuiðkun árið 2016 vegna þrálátra meiðsla, hefur undanfarin ár verið að taka þjálfararéttindin og hefur nú landað sínu fyrsta þjálfarastarfi.
Lars Jacobsen, fyrrverandi samherji hans hjá danska landsliðinu og fyrrverandi leikmaður Everton og West Ham United, mun verða Agger til halds og trausts sem aðstoðarþjálfari.
„HB Köge er hinn fullkomni staður fyrir mig að byrja á. Félagið fylgir heilbrigðum gildum og er með sterkan grunn. Ég hlakka mikið til að byrja, og já ég hlakka til að vera undir pressu á ný.“
Sem áður segir mun Agger taka við að loknu þessu tímabili þegar Aurelijus Skarbalius lætur af störfum.
Á mála hjá HB Köge eru þrír leikmenn sem hafa spilað á Íslandi á undanförnum árum, þeir Lasse Petry sem var hjá Val 2019-2020, Eddi Gomes sem var hjá FH 2018 og Mikkel Qvist sem lék með KA á síðasta tímabili.