Belgíski knattspyrnumaðurinn Eden Hazard, leikmaður spænska liðsins Real Madríd, er byrjaður að æfa á ný með leikmannahópi Spánarmeistaranna.
Hazard hefur verið mikið meiddur á þeim tæpu tveimur árum sem hann hefur verið á mála hjá Real Madríd en eftir að hafa meiðst enn einu sinni í síðasta mánuði hefur hann getað æft undanfarið.
Hann gæti því komið við sögu í stórleikjunum þremur sem eru fram undan hjá liðinu; tveimur leikjum gegn Liverpool í átta liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu og erkifjendaslagnum gegn Barcelona í spænsku 1. deildinni.
Fyrri leikur Real Madríd gegn Liverpool fer fram 6. apríl, því næst mætir liðið Barcelona 10. apríl og spilar svo aftur við Liverpool 14. apríl.