Belginn gæti náð stórleikjunum þremur

Eden Hazard.
Eden Hazard. AFP

Belgíski knattspyrnumaðurinn Eden Hazard, leikmaður spænska liðsins Real Madríd, er byrjaður að æfa á ný með leikmannahópi Spánarmeistaranna.

Hazard hefur verið mikið meiddur á þeim tæpu tveimur árum sem hann hefur verið á mála hjá Real Madríd en eftir að hafa meiðst enn einu sinni í síðasta mánuði hefur hann getað æft undanfarið.

Hann gæti því komið við sögu í stórleikjunum þremur sem eru fram undan hjá liðinu; tveimur leikjum gegn Liverpool í átta liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu og erkifjendaslagnum gegn Barcelona í spænsku 1. deildinni.

Fyrri leikur Real Madríd gegn Liverpool fer fram 6. apríl, því næst mætir liðið Barcelona 10. apríl og spilar svo aftur við Liverpool 14. apríl.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert