Fyrirliðabandið sem Cristiano Ronaldo grýtti í jörðina eftir að mark var dæmt af honum í leik Portúgals og Serbíu í Belgrad um síðustu helgi hefur heldur betur komið að góðum notum.
Bandið var þegar í stað sett á uppboð og nú hefur verið upplýst að hæstbjóðandi hafi greitt fyrir það 64 þúsund evrur, sem nemur um 9,5 milljónum íslenskra króna.
Sex mánaða gamall serbneskur drengur, Gavrilo Djurdjevic, fær að njóta þeirrar upphæðar en hann glímir við alvarlega hreyfihömlun.
Portúgalar misstu niður 2:0-forystu í umræddum leik í Belgrad og hann endaði 2:2. Ronaldo skoraði í uppbótartímanum en markið var dæmt af – ranglega eins og síðar kom í ljós.