Þýska dagblaðið Bild krefst þess að Joachim Löw, þjálfari karlalandsliðs Þýskalands í knattspyrnu, hætti tafarlaust störfum eftir ósigurinn óvænta gegn Norður-Makedóníu í Duisburg í fyrrakvöld, 1:2.
Löw hættir að lokinni úrslitakeppni Evrópumótsins í sumar eftir að hafa stýrt liðinu í fjórtán ár en það varð heimsmeistari undir hans stjórn árið 2014.
„Þetta er búið, Jogi,“ segir í fyrirsögn Bild þar sem íþróttaritstjóri blaðsins, Matthias Brügelmann, skrifar um stöðu mála eftir tapið.
„Þetta er þriðja sögulega hneykslið sem Jogi Löw ber ábyrgð á, eftir að hafa verið sigursæll þjálfari landsliðsins um árabil. Fyrst var það hve snemma liðið féll úr keppni á heimsmeistaramótinu í Rússlandi 2018, þá kom stærsta tap liðsins frá 1931 þegar það tapaði 6:0 fyrir Spánverjum, og svo kemur þessi ósigur, 1:2, gegn Norður-Makedóníu sem er í 65. sæti heimslistans,“ skrifar Brügelmann.
„Heimsbyggðin hlær að okkur og ef Löw væri stjóri þýsks félagsliðs hefði hann verið rekinn á stundinni. Og ef Löw er ekki með þetta á hreinu sjálfur og stígur til hliðar þá á þýska knattspyrnusambandið að grípa inn í til þess að setja Evrópukeppnina í sumar ekki í hættu. Ralf Rangnick og 21-árs landsliðsþjálfarinn Stefan Kuntz eru báðir klárir í slaginn,“ skrifar íþróttaritstjórinn enn fremur.
Í skoðanakönnun á heimasíðu Bild hafa 87 prósent þátttakenda greitt því atkvæði að Löw eigi að hætta strax.