Þjálfarinn og forsetinn ósammála

Jerome Boateng.
Jerome Boateng. AFP

Uli Hoeness, heiðurs­for­seti þýska knatt­spyrnuliðsins Bayern München, er ekki þekktur fyrir að liggja á skoðunum sínum og sagði nýlega að Jerome Boateng, leikmaður liðsins, eigi ekki skilið að vera kallaður aftur inn í þýska landsliðið.

Boateng er 32 ára gamalla miðvörður og hefur verið á mála hjá Bayern síðan 2011. Hefur hann spilað yfir 200 deildarleiki fyrir félagið og orðið þýskur meistari með því átta sinnum. Þá var hann í þýska landsliðinu sem varð heimsmeistari 2014 en hefur þó ekki spilað landsleik síðan 2018. Samherjar hans hjá Bayern, Thomas Müller og Mats Hummels, hafa sömuleiðis ekki verið valdir í landsliðið síðan þá, eða þegar Þjóðverjar féllu snemma og óvænt úr keppni á HM 2018.

Hoeness hefur kallað eftir því að Müller og Hummels snúi aftur í landsliðið en ekki Boateng. Hansi Flick, þjálfari Bayern, er ósammála. „Hann [Hoeness] hefur sínar skoðanir, ég veit að Bayern styður samt sína leikmenn,“ sagði Flick við Kicker.

„Ég er ótrúlega þakklátur Boateng, hann er lykilmaður í okkar liði og getur verið góður fyrir hvern sem er. Þetta er auðvitað ákvörðun Joachim Löw, en Boateng var stór ástæða fyrir því að við unnum þrefalt í fyrra,“ sagði Flick enn fremur. Joachim Löw lætur af störfum sem landsliðsþjálfari eftir EM í sumar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert