Þrír settir í bann vegna veislu

Weston McKennie stóð fyrir veisluhöldunum.
Weston McKennie stóð fyrir veisluhöldunum. AFP

Ítalska knattspyrnufélagið Juventus hefur sett þrjá leikmenn sína í bann eftir að þeir héldu ólöglega veislu heima hjá einum þeirra og brutu þar með ítölsk sóttvarnalög.

Bandaríski landsliðsmaðurinn Weston McKennie hélst veisluna heima hjá sér og þangað mættu bæði Paulo Dybala og Arthur Melo. Þeir verða ekki í leikmannahópi Juventus í grannaslagnum við Torino á morgun.

Lögregla mætti heim til McKennie á miðvikudagskvöldið og stöðvaði veisluhöldin en ásamt því að slíkt sé óheimilt í landinu um þessar mundir er útgöngubann frá klukkan tíu á kvöldin til fimm á morgnana.

„Þessir þrír verða ekki í hópnum á morgun. Þeir halda áfram æfingum og svo sjáum við til. Ég tók þessa ákvörðun varðandi leikinn, félagið sér um annað. Svona lagað gerist af og til en á þessum tímum var þetta hvorki staður né stund fyrir slíkt. Við eigum að sýna gott fordæmi og haga okkur í samræmi við það,“ sagði Andrea Pirlo, knattspyrnustjóri Juventus, á fréttamannafundi í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert