Verður þjálfari Ara og Valdimars rekinn vegna rasisma?

Henrik Pedersen, þjálfari Strømsgodset.
Henrik Pedersen, þjálfari Strømsgodset. Ljósmynd/Strømsgodset

Þjálfari norska knattspyrnufélagsins Strømsgodset, Daninn Henrik Pedersen, hefur verið sakaður um ítrekaða kynþáttafordóma og óviðeigandi ummæli í garð starfsfólks félagsins.

Samkvæmt fréttum í norsku útgáfu Eurosport og fréttablaðinu Nettavisen hefur Pedersen viðhaft rasísk ummæli í garð nokkurra aðila og hefur þetta endurtekið átt sér stað.

Nettavisen skrifar að blaðamenn þar á bæ hafi séð SMS-skilaboð sem Pedersen hefur sent, sem staðfesti tilvik af rasískum ummælum. Samkvæmt fregnum í Noregi stjórnar Pedersen af hörku og hefur innleitt „óttakúltúr“.

Forsvarsmenn félagsins hafa fundað vegna málsins þar sem farið hefur verið yfir hvernig ætti að greiða úr því. Meðal annars er því velt upp hvort ætti að segja honum upp störfum.

Pedersen vildi ekki tjá sig um málið við Eurosport og framkvæmdastjóri Strømsgodset, Ivar Strømsjordet, vildi sömuleiðis ekki gera það.

Ari Leifsson og Valdimar Þór Ingimundarson, sem luku U21 árs ferli sínum á lokamóti EM í vikunni, eru báðir á mála hjá Strømsgodset.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert