AZ Alkmaar vann sterkan 1:0-útisigur á Willem II í hollensku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld. AZ lék manni færri frá 5. mínútu er Teun Koopmeiners fyrirliði liðsins fékk beint rautt spjald.
Albert Guðmundsson var í byrjunarliði AZ og hann skoraði sigurmarkið á 72. mínútu, sex mínútum eftir að hann skoraði mark sem var dæmt af. Albert fór af velli á lokamínútunni.
Albert hefur skorað fimm mörk í 20 leikjum á leiktíðinni, en hann hefur mest skorað sex mörk á einu tímabili í hollensku deildinni.
AZ er í öðru sæti deildarinnar með 58 stig, átta stigum á eftir toppliði Ajax.