Bayern München tók stórt skref í áttina að Þýskalandsmeistaratitlinum í fótbolta með 1:0-útisigri í toppslag gegn Leipzig í kvöld.
Leon Goretzka, sem skoraði fyrir Þýskaland gegn Íslandi í undankeppni HM á dögunum, skoraði sigurmarkið á 38. mínútu. Leipzig var töluvert sterkari aðilinn í seinni hálfleik en tókst ekki að jafna metin.
Bayern er nú með 64 stig á toppi deildarinnar og Leipzig í öðru sæti með 57 stig þegar sjö umferðir eru eftir.