Dortmund að heltast úr lestinni

Erling Braut Haaland og aðrir leikmenn Dortmund voru svekktir í …
Erling Braut Haaland og aðrir leikmenn Dortmund voru svekktir í leikslok. AFP

Eintracht Frankfurt vann slaginn mikilvæga gegn Dortmund í þýsku 1. deildinni í knattspyrnu í dag, 2:1, en liðin eru í harðri baráttu um sæti í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð.

Gestirnir komust í forystu snemma leiks er Nico Schulz varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark en Mats Hummels jafnaði metin fyrir Dortmund rétt fyrir hálfleik. André Silva tryggði hins vegar Frankfurt sigurinn með marki þremur mínútum fyrir leikslok og er staða liðsins nú orðin góð.

Frankfurt hefur 50 stig í fjórða sætinu en Dortmund er sæti neðar með 43 stig þegar níu umferðir eru óleiknar.

Þá var Alfreð Finnbogason ónotaður varamaður í liði Augsburg sem vann Hoffenheim á heimavelli, 2:1, og var því í hópnum í fyrsta sinn síðan hann meiddist í janúar. Augsburg er í 11. sæti deildarinnar með 32 stig og siglir nokkuð lygnan sjó, liðið er níu stigum fyrir ofan fallsvæði og 11 stigum frá Evrópusæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert