Spænska stórliðið Real Madríd ætlar ekki að gera tilboð í norska knattspyrnumanninn Erling Braut Haaland í sumar þrátt fyrir að Norðmaðurinn sjálfur vilji helst fara til félagsins.
Umboðsmaðurinn Mino Raiola og Alf Inge Haaland, faðir Erlings, voru á Spáni á dögunum að ræða við forráðamenn bæði Barcelona og Real Madríd en Norðmaðurinn ungi hefur slegið í gegn með Dortmund í þýsku efstu deildinni og Meistaradeild Evrópu.
Samkvæmt spænska miðlinum AS er það heitasta ósk Haaland að spila fyrir sögufrægt lið Real Madríd en félagið hefur einfaldlega ekki efni á honum vegna bágrar fjárhagsstöðu. Haaland er samningsbundinn Dortmund til ársins 2024 en klásúla í samningi hans gerir öðrum félögum kleift að kaupa hann á 75 milljónir evra sumarið 2022.