Real Madrid er komið upp í annað sæti spænsku 1. deildarinnar í fótbolta eftir 2:0-sigur á Eibar á heimavelli í dag.
Marco Asensio kom boltanum í netið á 38. mínútu en markið stóð ekki eftir skoðun í VAR. Aðeins þremur mínútum síðar var hann aftur á ferðinni og þá kom hann Real í forystu og var staðan í hálfleik 1:0.
Franski markahrókurinn Karim Benzema gulltryggði Real svo sigurinn með marki á 73. mínútu með sínu 17. marki á leiktíðinni.
Real er með 63 stig, þremur stigum frá toppliði Atlético Madrid og einu stigi á undan Barcelona. Atlético og Barcelona hafa hins vegar leikið einum leik minna.