Real Sociedad vann sinn fyrsta spænska bikarmeistaratitil í fótbolta frá árinu 1988 er liðið lagði Athletic Bilbao í úrslitaleik á Estadio de la Cartuja-vellinum í Sevilla í kvöld, 1:0.
Um var að ræða úrslitaleik keppninnar frá því á síðustu leiktíð, en honum var frestað vegna kórónuveirunnar. Var honum í kjölfarið frestað um tæpt heilt ár til viðbótar til að áhorfendur gætu mætt á völlinn, en það gekk ekki eftir.
Sérstök ástæða var lögð á að fá stuðningsmenn á völlinn þar sem þetta er í fyrsta skipti sem tvö lið frá Baskalandi mætast í úrslitum spænska bikarsins frá 1910. Hins vegar hefur spornun við kórónuveirunni gengið hægar á Spáni en vonir stóðu til og því leikið án áhorfenda.
Mikel Oyarzabal, fyrirliði Sociedad, skoraði sigurmarkið úr vítaspyrnu á 63. mínútu. Athletic Bilbao fær annað tækifæri til að verða spænskur bikarmeistari 17. apríl er liðið mætir Barcelona í úrslitaleik yfirstandandi tímabils.