Martin Kallen, yfirmaður Evrópumóts karla í fótbolta hjá UEFA, kveðst bjartsýnn á að áhorfendur á leikjunum í Danmörku í úrslitakeppni Evrópumótsins verði helmingi fleiri en Danir gera nú ráð fyrir.
Joy Mogensen, menningarmálaráðherra Dana, skýrði frá því í síðasta mánuði að í það minnsta 12 þúsund manns megi koma á hvern leik í keppninni í Danmörku. Danir leika gegn Finnlandi, Belgíu og Rússlandi á Parken í Kaupmannahöfn en sá leikvangur rúmar 38 þúsund áhorfendur.
Auk þess fer fram á vellinum einn leikur í sextán liða úrslitum keppninnar.
Þá hefur danska knattspyrnusambandið tilkynnt að þessir 12 þúsund verði allir að vera búsettir í Danmörku eða með löglega heimild til að dvelja í landinu. Áhorfendur erlendis frá verði ekki leyfðir vegna sóttvarnareglna.
„Miðað við hversu vel Danir hafa unnið með faraldurinn og skipulag þeirra í skimunarmálum teljum við fulla ástæðu til að búast við minnst 18 til 20 þúsund áhorfendum á hverjum leik. Það eru jú meira en tveir mánuðir í fyrsta leikinn. Við vonumst eftir að því að geta nýtt allt að 60 prósent sæta og vera með í kringum 24 þúsund manns á leik,“ sagði Kallen við TV3 Sport í morgun.
Sem stendur eru engir áhorfendur leyfðir á leikjum í dönsku knattspyrnunni og það hefur sætt talsverðri gagnrýni í landinu.