Aron Sigurðarson skoraði eitt marka Royal Union Saint Gilloise í gærkvöld þegar lið hans vann stórsigur á varaliði Club Brugge, 4:0, í belgísku B-deildinni í knattspyrnu.
Aron lék fyrstu 78 mínútur leiksins og skoraði fjórða markið í byrjun síðari hálfleiks en lið hans lét svo þar við sitja. Þetta var þriðja mark Arons í deildinni í vetur en hann hefur spilað fjórtán af 27 leikjum liðsins.
Royal Union hefur haft gríðarlega yfirburði í deildinni í vetur og er fyrir löngu búið að tryggja sér sæti í A-deildinni. Þegar liðið á einum leik ólokið er það með 21 stigs forskot á næsta lið.
Royal Union er gamalgróið félag frá höfuðborginni Brussel. Það var stórveldi framan af 20. öldinni og vann þá belgíska meistaratitilinn ellefu sinnum frá 1904 til 1935, oftar en nokkurt annað félag fram að síðari heimsstyrjöldinni. Það hefur nú tryggt sér sæti í efstu deild í fyrsta sinn í 48 ár.
Skömmu eftir að Royal Union féll síðast úr efstu deild, árið 1973, léku tveir Íslendingar með því um skeið, Marteinn Geirsson og Stefán Halldórsson. Aron fetaði síðan í þeirra fótspor þegar hann kom til félagsins frá Start í Noregi í ársbyrjun 2020.