Áform um ofurdeild vekja reiði

Forsvarsmenn UEFA eru ekki á eitt sáttir við áform um …
Forsvarsmenn UEFA eru ekki á eitt sáttir við áform um að stofna Ofurdeild. AFP

Hópur nokkurra af stærstu knattspyrnufélögum Evrópu hefur uppi áform um að segja skilið við Meistaradeild Evrópu og stofna sína eigin ofurdeild. Forsvarsmenn evrópska knattspyrnusambandsins, UEFA, hafa brugðist ókvæða við þessum áformum.

Áformin kveða á um að stofnuð verði 20 liða ofurdeild, með 15 föstum liðum, sem verður keppt í á hverju ári. Hin fimm liðin yrðu ekki þau sömu ár frá ári, þótt ekki sé búið að móta í stein hvernig þessi lið gætu unnið sér inn keppnisrétt í ofurdeildinni.

Stofnun ofurdeildarinnar snýr í stórum dráttum að því að stærstu félög álfunnar treysti enn frekar völd sín og aðgengi að fjármunum. Stofnendaliðin 15 myndu fá að minnsta kosti 3,5 milljarða evra í innviðastyrki. Peningunum yrði svo skipt í fernt eftir styrkleika liða, þar sem bestu sex liðin fengju um 350 milljónir evra hvert.

Að baki áformunum standa félög á borð við Liverpool, Manchester United, Manchester City, Arsenal, Chelsea, Tottenham Hotspur Real Madríd, Barcelona, Juventus og AC Milan. Ekkert franskt eða þýskt félag er hins vegar hluti af þeim.

Tortryggilegt verkefni sem byggist á eiginhagsmunum

UEFA fann sig knúið til að gefa út harðorða yfirlýsingu vegna þessara áforma.

„UEFA, enska knattspyrnusambandið og enska úrvalsdeildin, hið konunglega spænska knattspyrnusamband og spænska 1. deildin, ásamt ítalska knattspyrnusambandinu og ítölsku A-deildinni, hafa fengið veður af því að nokkur ensk, spænsk og ítölsk félög séu með áform um að kynna nýja lokaða deild, svokallaða ofurdeild,“ segir meðal annars í yfirlýsingu frá UEFA.

Þar segir einnig: „Fari svo að það gerist viljum við ofangreind sambönd ásamt FIFA og öllum samböndum innan UEFA ítreka að við munum áfram standa saman í að stöðva allar tilraunir til þess að koma þessu tortryggilega verkefni á legg, verkefni sem byggist á eiginhagsmunum nokkurra félaga á tíma þegar samfélagið þarfnast samstöðu meira en nokkru sinni fyrr.

Við munum skoða allar þær ráðstafanir sem standa okkur til boða, á öllum stigum, hvort sem það tengist hefðbundnum dómstólum eða íþróttadómstólum, með það fyrir augum að koma í veg fyrir þessi áform. Knattspyrna byggist á opnum keppnum og íþróttamennsku, það getur ekki verið neitt öðruvísi.“

Þá var áréttað það sem áður hefur komið fram í tengslum við áform um ofurdeild, að samböndin muni grípa til keppnis- og leikbanna gerist þess þörf.

„Eins og FIFA og knattspyrnusambönd álfanna sex hafa áður tilkynnt verða félögin sem eiga í hlut útilokuð frá öllum öðrum keppnum í heimalöndum, Evrópukeppnum og heimsmeistaramótum, og leikmönnum þeirra gæti verið meinaður möguleiki á að leika fyrir hönd þjóða sinna.“

Að lokum beindi UEFA sérstöku þakklæti til franskra og þýskra félaga og endaði á ákalli. „Við þökkum félögunum í öðrum löndum, sérstaklega frönsku og þýsku félögunum, sem hafa hafnað því að vera með í þessu.

Við áköllum alla þá sem elska knattspyrnu, stuðningsfólk og stjórnmálafólk til að taka þátt í því að berjast með okkur gegn verkefni sem þessu. Þessir endalausu eiginhagsmunir hafa fengið að grassera nógu lengi. Nú er komið nóg.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert