Afleit hugmynd

Guðni Bergsson, formaður KSÍ.
Guðni Bergsson, formaður KSÍ. mbl.is/Hari

„Mér líst afleitlega á þessa hugmynd,“ sagði Guðni Bergsson, formaður KSÍ, í samtali við mbl.is um nýja ofurdeild sem stærstu félög Evrópu hyggjast setja á laggirnar á næstu mánuðum.

AC Milan, Arsenal, Atlético Madrid, Chelsea, Barcelona, Inter Mílanó, Juventus, Liverpool, Manchester City, Manchester United, Real Madrid og Tottenham eru félögin sem standa á bak við stofnun deildarinnar og þá eru þrjú félög til viðbótar í viðræðum um að koma að stofnun deildarinnar.

„Ég held að þetta sé ekki gott fyrir fótboltann í heild sinni og þarna eru ákveðin félög að hugsa fyrst og fremst um eigin hag og fjárhag.

Ég tel að þetta yrði mjög slæmt skref fyrir fótboltann ef af þessu verður og vona heitt og innilega að svo verði ekki,“ bætti Guðni við.

Guðni er nú staddur í Nyon í Sviss þar sem ársþing UEFA fer fram.

„Hljóðið innan hreyfingarinnar er mjög þungt yfir þessum hugmyndum og formenn knattspyrnusambandanna innan UEFA eru sameinuð í þeirri afstöðu að þetta sé ekki gott skref fyrir fótboltann.

UEFA sendi frá sér harðorða yfirlýsingu í gærkvöldi vegna hugmyndarinnar og þetta mál verður að sjálfsögðu tekið fyrir á ársþinginu. Ég á von á fleiri tilkynningum frá evrópska knattspyrnusambandinu á næstu dögum.“

Liverpool er eitt þeirra félaga sem kemur að stofnun nýrrar …
Liverpool er eitt þeirra félaga sem kemur að stofnun nýrrar ofurdeildar. AFP

Hótanir af hálfu félaganna

Til stendur að hefja leik í ofurdeildinni í haust en á Guðni von á því að deildin fari af stað á næstu mánuðum?

„Það er erfitt fyrir mig að dæma um það á þessu stigi. Þetta virðist vera komið lengra en oft áður því þessari hugmynd hefur verið fleygt fram áður í samskiptum UEFA og stærstu félaganna í sjónvarpssamningum vegna Meistaradeildarinnar.

Það hafa verið hótanir af hálfu félaganna í garð UEFA þess eðlis að þau ætli sér að stofna nýja deild en það eru vissulega margir fletir á þessu máli. Sem formaður KSÍ og áhugamaður um fótbolta þá snýst fótbolti fyrst og fremst um deildarkeppnirnar að mínu mati.

Þar fer starfið fram, sem og grasrótarstarfið, og það er mikilvægt að hlúa að því. Það er mjög slæm þróun ef það á að kljúfa hreyfinguna með svona útspili og það er ekki í anda þess sem hreyfingin á að standa fyrir um að allir eigi möguleika á að komast upp um deild, falla úr deild og svo framvegis.

Þetta er vísan í einhvers konar fyrirkomulag sem er við lýði í Bandaríkjunum þar sem menn eiga fast sæti í ákveðnu keppnisfyrirkomulagi en þetta er ekki það sem fótboltinn á að snúast um,“ sagði Guðni í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert