Knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, og knattspyrnusambönd Englands, Spánar og Ítalíu ásamt stjórnum efstu deilda í þessum löndum segja í sameiginlegri yfirlýsingu að þau muni gera allt sem í þeirra valdi stendur til að stöðva áform um stofnun nýrrar „ofurdeildar“ tólf liða frá þessum þremur löndum.
Í yfirlýsingunni segir m.a. að UEFA, knattspyrnusamböndin og deildastjórnirnar þrjár muni ásamt FIFA og öllum aðildarþjóðum berjast í sameiningu gegn þessu siðlausa verkefni sem sett hafi verið af stað á tímum þegar þjóðfélögin þurfi meira á samstöðu að halda en nokkru sinni fyrr.
„Við munum kanna allar mögulegar leiðir, lögfræðilegar sem íþróttalegar, til að koma í veg fyrir að þetta verði að veruleika. Knattspyrna byggist á því að keppni sé opin og ráðist af úrslitum. Hún getur ekki verið á neinn annan hátt.
Eins og FIFA og heimsálfusamböndin sex hafa þegar lýst yfir munu félögin sem taka þátt í þessu verða sett í bann frá þátttöku í innanlandskeppni, Evrópukeppni og annarri alþjóðakeppni og leikmönnum þeirra gæti einnig verið óheimilt að leika með sínum landsliðum.
Við þökkum félögum frá öðrum löndum, sérstaklega Frakklandi og Þýskalandi, sem hafa neitað að taka þátt í þessu. Við köllum á alla sem elska fótbolta, stuðningsfólk og stjórnmálafólk, til að sameinast okkur í baráttunni gegn svona verkefni, verði það að veruleika. Þessi stöðuga eiginhagsmunastefna örfárra hefur staðið alltof lengi. Nú er komið nóg.“