Ísland á tvo fulltrúa í liði umferðarinnar í sænsku úrvalsdeildinni í kvennaknattspyrnu hjá sænska miðlinum Aftonbladet.
Keflvíkingurinn Sveindís Jane Jónsdóttir er í fremstu víglínu en hún var á skotskónum fyrir Kristianstad í 1:1-jafntefli liðsins gegn Eskilstuna á útivelli í 1. umferð deildarinnar.
Sveindís, sem er í eigu þýska 1. deildar félagsins Wolfsburg, mun leika á láni hjá Kristianstad á tímabilinu.
„Besti leikmaður umferðarinnar?“ segir í umfjöllun Aftonbladet um frammistöðu Sveindísar.
„Ef fólk hafði áhyggjur af því að það væri búið að tala leikmanninn of mikið upp þá getur það horft á frammistöðu hennar gegn Eskilstuna.
Hún er framherji sem allir vilja vera, og hafa, en virðist vera erfitt að sækja. Hún er gríðarlega beinskeytt og óhrædd. Hún sér bara markið,“ segir ennfremur í umfjölluninni.
Þá er Glódís Perla Viggósdóttir, varnarmaður Rosengård, einnig í liðinu en Rosengård vann dramatískan 1:0-útisigur gegn Linköping þar sem Stefanie Sanders skoraði sigurmark leiksins í uppbótartíma.