Portúgalska knattspyrnufélagið Benfica hefur borið til baka fregnir um að það sé í viðræðum um aðild að hinni svokölluðu ofurdeild í evrópska fótboltanum.
Í yfirlýsingu frá Benfica segir að slíkar fréttir eigi ekki við nokkur rök að styðjast enda hafi Benfica verið fyrsta portúgalska félagið til að lýsa yfir andstöðu við hugmyndir um stofnun ofurdeildar í nóvembermánuði síðastliðnum. Félagið hafi ávallt lagst gegn öllum hugmyndum um keppni utan ramma UEFA og jafnframt tekið þátt í að móta nýtt keppnisfyrirkomulag í Meistaradeild Evrópu sem taki gildi árið 2024.
„Benfica hefur alltaf verið og mun alltaf verða samstíga UEFA með gildi evrópsks fótbolta að leiðarljósi,“ segir m.a. í yfirlýsingunni.