Manchester City tilkynnti formlega fyrir stundu að félagið væri hætt við þátttöku í hinni svokölluðu ofurdeild í fótboltanum og forseti UEFA, Knattspyrnusambands Evrópu, var fljótur að bregðast við því.
„Ég er hæstánægður með að geta boðið Manchester City aftur velkomið í evrópsku fótboltafjölskylduna. Þeir voru afar skynsamir því þeir hlustuðu á hinar fjölmörgu raddir – aðallega raddir þeirra eigin stuðningsmanna – sem hafa undirstrikað mikilvægi núverandi fyrirkomulags í Evrópufótboltanum. Allt frá heimsviðburðinum sem er úrslitaleikur Meistaradeildarinnar, niður til fyrstu æfingar ungs leikmanns hjá sínu grasrótarfélagi,“ sagði Ceferin í yfirlýsingu.
„Eins og ég sagði á þingi UEFA þarf hugrekki til að viðurkenna mistök, en ég vissi alltaf að City hefði getuna og skynsemina til að taka þessa ákvörðun. City er íþróttinni til sóma og ég er hæstánægður með að geta unnið með þeim að betri framtíð fyrir evrópskan fótbolta,“ sagði Ceferin.