Þýskalandsmeistarar Bayern München eru með tíu stiga forskot á toppi þýsku 1. deildarinnar í knattspyrnu eftir 2:0-heimasigur gegn Bayer Leverkusen í deildinni í kvöld.
Bæjarar fóru langt með að ganga frá leiknum á fyrstu fimmtán mínútunum því Eric Maxim Choupa-Moting kom þeim yfir á 7. mínútu og Joshua Kimmich bætti við öðru marki Bæjara sex mínútum síðar.
Á sama tíma tapaði RB Leipzig mjög óvænt fyrir Köln en Köln berst fyrir lífi sínu í deildinni í næstneðsta sætinu.
Bayern München er með 71 stig í efsta sætinu þegar fjórir leikir eru eftir af tímabilinu en Leipzig er í öðru sætinu með 61 stig.
Þá er Schalke fallið úr efstu deild eftir 1:0-tap gegn Arminia Bielefeld á útivelli en Schalke er með 13 stig í neðsta sæti deildarinnar, 13 stigum minna en Hertha Berlín og Köln.