Þegar félögin tólf sem standa að stofnun ofurdeildarinnar svokölluðu í evrópska fótboltanum kynntu áform sín á sunnudaginn kom einnig fram að þau ætluðu sér að koma á laggirnar sams konar deild í kvennaflokki.
Í tilkynningunni segir meðal annars: „Eins fljótt og mögulegt verður eftir að keppni karlanna hefur farið af stað verður sams konar kvennadeild einnig komið á laggirnar til að þróa íþróttina í kvennaflokki.“
Þetta hefur ekki farið vel í evrópska knattspyrnuforystu, enda eru kvennalið sumra aðildarfélaganna ekki sérstaklega sterk. Liverpool leikur t.d. í B-deildinni á Englandi og Tottenham, Manchester United og Real Madrid eru með lið sem eru nýkomin í efstu deild í sínum löndum.
Stórveldin í evrópskum kvennafótbolta eru hins vegar frönsku liðin Lyon og París SG og þýsku liðin Wolfsburg og Bayern München en ekkert þessara félaga kemur að ofurdeildinni.
„Þetta var tilkynnt án nokkurrar umræðu, og kemur upp á sama tíma og Meistaradeild kvenna er að ganga í gegnum róttækar breytingar. Þetta er bein ógnun við öll þau áform sem við höfum verið að þróa í náinni samningu við Samtök evrópskra knattspyrnufélaga, félögin og deildirnar varðandi hina nýju Meistaradeild kvenna,“ segir Nadine Kessler, yfirmaður kvennaknattspyrnunnar hjá UEFA og fyrrverandi leikmaður Wolfsburg, í bréfi sem hún birti á Twitter í dag.
Næsta vetur verður í fyrsta skipti leikið í riðlum í Meistaradeild kvenna og liðum þar hefur verið fjölgað en Ísland nýtur m.a. góðs af því og verður með tvö lið í keppninni.