Knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, ákvað í dag að Bilbao kæmi ekki lengur til greina sem leikstaður í lokakeppni Evrópumóts karla í sumar þar sem ekki liggur fyrir að tryggt sé að áhorfendur geti verið á leikjunum í Baskaborginni.
Leikirnir verða færðir til innan Spánar og leikið verður í Sevilla í Andalúsíuhéraði á Suður-Spáni í staðinn. Þar eru reglur heilbrigðisyfirvalda vegna útbreiðslu kórónuveirunnar ekki jafn strangar og á norðurströndinni.
Spánverjar áttu að leika alla sína heimaleiki í G-riðlinum í Bilbao en þeir fara nú fram í Sevilla og spænska liðið leikur þar við Svíþjóð 14. júní, Pólland 19. júní og Slóvakíu 23. júní.
Borgaryfirvöld í Bilbao eru afar óhress með þessa ákvörðun UEFA og benda á að sjö ár séu síðan samið var um að leikið yrði í borginni.