Leikmenn þýska knattspyrnufélagsins Schalke voru grýttir með eggjum eftir 1:0-tap liðsins á útivelli gegn Arminia Bielefeld í þýsku 1. deildinni í knattspyrnu í gær.
ESPN greinir frá þessu en eftir tapið í gær varð endanlega ljóst að Schalke væri fallið úr efstu deild Þýskalands.
Stuðningsmenn Schalke voru vægast sagt brjálaðir eftir tapið og biðu eftir liðsrútu Schalke í Gelsenkirchen í Þýskalandi.
Þegar rútan mætti á svæðið og leikmenn liðsins stigu út úr henni grýttu þeir eggjum í þá en þetta er í fyrsta sinn síðan 1988 sem liðið fellur úr efstu deild.
Schalke er stórveldi í þýskum fótbolta en liðið hefur sjö sinnum orðið Þýskalandsmeistari og fimm sinnum bikarmeistari.