Ronald De Boer, fyrrverandi landsliðsmaður Hollands í knattspyrnu, segir að íslenskur sautján ára strákur minni sig mjög á Kevin De Bruyne, miðjumann Manchester City og belgíska landsliðsins.
Umræddur piltur er Kristian Nökkvi Hlynsson, sem leikur með unglinga- og varaliði hollensku meistaranna Ajax og hefur spilað nokkra leiki með varaliðinu í hollensku B-deildinni í vetur.
De Boer þekkir til Kristians þar sem hann kemur sjálfur að þjálfun í unglingaliðum hjá Ajax.
„Hann er hinn íslenski Kevin De Bruyne. Takið eftir honum,“ sagði De Boer við ESPN en hann starfar reglulega sem fótboltasérfræðingur í hollensku sjónvarpi.
Ajax keypti Kristian Nökkva af Breiðabliki í janúar 2020, þá aðeins fimmtán ára gamlan, en hann hafði þá þegar leikið einn leik fyrir Kópavogsliðið í úrvalsdeildinni.