Meistararnir tylltu sér á toppinn

Karim Benzema skoraði tvívegis fyrir Real Madrid.
Karim Benzema skoraði tvívegis fyrir Real Madrid. AFP

Spánarmeistarar Real Madrid eru komnir á toppinn í spænsku 1. deildinni í knattspyrnu eftir öruggan sigur gegn Cadiz á útivelli í kvöld.

Leiknum lauk með 3:0-sigri Real Madrid en öll mörk leiksins komu í fyrri hálfleik.

Karim Benzema kom Real Madrid yfir á 30. mínútu með marki úr vítaspyrnu áður en Alvaro Odriozola bætti við öðru marki Madrídinga þremur mínútum síðar.

Benzema var svo aftur á ferðinni á 40. mínútu þegar hann skoraði þriðja mark Real Madrid og sitt annað mark í leiknum.

Real Madrid er með 70 stig í efsta sæti deildarinnar, líkt og Atlético Madrid, en Real Madrid er með betri innbyrðisviðureignir á Atlético Madrid.

Atlético Madrid á hins vegar leik til góða og getur endurheimt toppsætið á morgun þegar það fær Huesca í heimsókn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert