Spænsku félögin senda skýr skilaboð

Leikmenn Brighton hituðu upp í svona bolum fyrir leikinn gegn …
Leikmenn Brighton hituðu upp í svona bolum fyrir leikinn gegn Chelsea í gærkvöld. AFP

Spænsk félög ætla að sýna andstöðu sína við hugmyndirnar um ofurdeild í evrópskum fótbolta í kvöld og annað kvöld en þá er leikin heil umferð í spænsku 1. deildinni, La Liga.

Níu félög hafa boðað að þau muni hita upp í bolum með skilaboðum um að lið verði að vinna sér sæti í Meistaradeild Evrópu. Í ofurdeildinni áttu stofnliðin að eiga víst sæti, sama hvernig þeim gengi innan vallar.

Með þessu fylgja þau fordæmi Leeds og Brighton en leikmenn þeirra hituðu upp fyrir leiki gegn Liverpool og Chelsea í ensku úrvalsdeildinni í sams konar bolum á mánudags- og þriðjudagskvöld.

Umrædd félög eru Valencia, Cádiz, Osasuna, Villarreal, Alavés, Sevilla, Levante, Athletic Bilbao og Real Betis, og fleiri gætu bæst í hópinn.

Þau hyggjast einnig birta skilaboðin á ljósatöflum leikvanga sinna og minna eins rækilega á samstöðu með evrópskum fótbolta og Meistaradeild Evrópu og mögulegt er.

Cádiz tekur einmitt á móti Real Madrid, aðalforsprökkum ofurdeildarinnar, á meðan hin tvö sjóræningjafélögin, Barcelona og Atlético Madrid, eiga heimaleiki í þessari umferð gegn Getafe og Huesca.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert