Tvö af fimm bestu saman í riðli

Megan Rapinoe og samherjar í bandaríska landsliðinu mæta Svíum í …
Megan Rapinoe og samherjar í bandaríska landsliðinu mæta Svíum í Tókýó. AFP

Tvö af fimm bestu landsliðum heims samkvæmt heimslista FIFA leika saman í riðli í knattspyrnukeppni Ólympíuleikanna í Tókýó í sumar en dregið var í riðla í dag.

Bandarísku heimsmeistararnir eru efstir á heimslista kvenna og Svíþjóð í fimmta sæti og þessi lið munu mætast í riðlakeppninni. Með þeim í riðli eru Ástralía og Nýja-Sjáland.

Evrópumeistarar Hollands eru í riðli með Brasilíu, Kína og Sambíu og í þriðja riðlinum eru Japan, Kanada, Bretland og Síle.

Aðeins þrjár Evrópuþjóðir eru í hópi tólf liða á Ólympíuleikunum en Holland, Svíþjóð og England náðu lengst Evrópuþjóða á heimsmeistaramótinu í Frakklandi 2019, höfnuðu í öðru, þriðja og fjórða sæti, á meðan m.a. Þýskaland og Frakkland féllu út í átta liða úrslitum og komast þar með ekki á Ólympíuleikana.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert