Endurheimtu toppsætið

Leikmenn Atlético Madríd fagna einu af tveimur mörkum sínum í …
Leikmenn Atlético Madríd fagna einu af tveimur mörkum sínum í kvöld. AFP

Atlético Madríd endurheimti toppsætið í spænsku efstu deildinni í knattspyrnu með því að leggja Huesca að velli í kvöld, 2:0, í leik sem liðið átti til góða.

Spánarmeistarar Real Madríd komust á toppinn í gær eftir 3:0-sigur á Cadiz en Atlético, sem hafði ekki unnið í síðustu tveimur leikjum sínum, átti viðureign kvöldsins inni. Angel Correa kom heimamönnum yfir á 39. mínútu og Yannick Carrasco bætti við marki á 80. mínútu.

Atlético er nú með 73 stig á toppnum eftir 32 umferðir, þremur stigum á undan Real Madríd og sex stigum á undan Sevilla í þriðja sætinu. Þá er Barcelona í 4. sæti með 65 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert