„Myndi vera hér til lífstíðar ef ég gæti“

Zlatan Ibrahimovic verður fertugur í október.
Zlatan Ibrahimovic verður fertugur í október. AFP

Knatt­spyrnumaður­inn Zlat­an Ibra­himovic hefur skrifað undir nýjan samning við ítalska félagið AC Milan og mun hann nú leika út næsta tímabil með liðinu. Svíinn á afmæli í október og spilar framherjinn því fram yfir fertugt með liðinu.

Zlatan sneri aftur til AC Milan í desember 2019 en hann var áður hjá félaginu frá 2010 til 2012. Hann hefur skorað 17 mörk í 25 leikjum í öllum keppnum á tímabilinu. „Ég hef alltaf sagt að það að spila fyrir AC Milan er eins og að vera heima,“ er haft eftir Svíanum geðþekka í tilkynningu á heimasíðu AC Milan. „Ég myndi vera hér til lífstíðar ef ég gæti, ég er ótrúlega ánægður hérna.“

Framherjinn hóf ferilinn með Malmö í heimalandinu árið 1999 en hefur síðan spilað með stórliðum á borð við Ajax, Juventus, Inter, Barcelona, PSG og Manchester United. Þá var hann á mála hjá LA Galaxy í Bandaríkjunum. Hann hefur skorað 502 mörk á ferlinum í 608 leikjum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert