Þótt níu af þeim tólf félögum sem áttu að koma að stofnun ofurdeildarinnar í knattspyrnu hafi ákveðið að taka ekki þátt vegna mikillar óánægju stuðningsmanna víðs vegar um Evrópu lifir verkefnið góðu lífi að sögn Florentino Pérez, forseta spænska íþróttafélagsins Real Madríd.
Real er aðeins eitt af þremur liðum sem eftir sitja og telja margir að ekkert verði úr deildinni. Pérez var hins vegar ekki á sama máli er hann ræddi við spænsku útvarpsstöðina Cadena.
„Við erum í biðstöðu og munum halda áfram að vinna að stofnun deildarinnar,“ sagði Pérez. „Stóru félögin leggja mikið af mörkum til knattspyrnunnar og það er mikilvægt að við höfum eitthvað að segja um hvernig tekjunum er dreift.“