Andri Fannar Baldursson spilaði sínar fyrstu mínútur með Bologna í um tvo mánuði þegar hann kom inn á í 1:1 jafntefli gegn Torino í gærkvöldi.
Hann kom inn á sem varamaður strax á 9. mínútu fyrir hinn meidda Nicolas Domínguez en var tekinn af velli að nýju á 56. mínútu.
Þrátt fyrir það spilaði hann vel og fékk til að mynda góða dóma hjá íþróttablaðinu Gazzetta dello Sport, þar sem hann var kallaður „stálbarnið“ og honum líkt við hershöfðingja vegna dugnaðar síns á miðsvæðinu.
Í samtali við Fótbolta.net í gærkvöldi staðfesti Andri Fannar enda að ástæðan fyrir því að Sinisa Mihajlovic, knattspyrnustjóri Bologna, hafi tekið hann svo snemma af velli hafi verið vegna guls spjald sem hann nældi sér í á 28. mínútu.
Lína dómara leiksins hafi verið mjög ströng og fékk Andri Fannar að líta gula spjaldið fyrir sitt fyrsta brot.