Áfrýjar banni fyrir kynþáttaníð

Glen Kam­ara og Ondrej Ku­dela í handa­lög­mál­um eft­ir að leik­ur­inn …
Glen Kam­ara og Ondrej Ku­dela í handa­lög­mál­um eft­ir að leik­ur­inn í Glasgow var flautaður af. AFP

Tékk­neski knatt­spyrnumaður­inn Ondrej Ku­dela hefur áfrýjað tíu leikja banninu sem hann fékk fyrir að beita finnska leikmanninn Glen Kamara kynþáttaníði í viðureign Slavia Prag og Rangers í Evrópudeildinni í síðasta mánuði.

Leik­ur liðanna fór fram í Glasgow 18. mars og var síðari viður­eign­in í sex­tán liða úr­slit­un­um þar sem Slavia sigraði 2:0 og þar með 3:1 sam­an­lagt. Þar var Kudela ásakaður um að hafa viðhaft kynþátta­for­dóma í garð Kamara meðan á leiknum stóð. UEFA úrskurðaði Kamara í þriggja leikja bann fyrir að ráðast að Kudela eftir leik og var Tékkinn settur í tíu leikja bann fyrir kynþáttaníðið.

Lögmaður Kudela hefur staðfest að leikmaðurinn hafi áfrýjað úrskurðinum en verði bannið óraskað mun hann missa af leikjum með Tékkum á Evrópumeistaramótinu í sumar. Að sögn lögmannsins, sem talaði við Reuters, er Kudela vongóður um að geta fengið úrskurðinum snúið við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert