Tékkneski knattspyrnumaðurinn Ondrej Kudela hefur áfrýjað tíu leikja banninu sem hann fékk fyrir að beita finnska leikmanninn Glen Kamara kynþáttaníði í viðureign Slavia Prag og Rangers í Evrópudeildinni í síðasta mánuði.
Leikur liðanna fór fram í Glasgow 18. mars og var síðari viðureignin í sextán liða úrslitunum þar sem Slavia sigraði 2:0 og þar með 3:1 samanlagt. Þar var Kudela ásakaður um að hafa viðhaft kynþáttafordóma í garð Kamara meðan á leiknum stóð. UEFA úrskurðaði Kamara í þriggja leikja bann fyrir að ráðast að Kudela eftir leik og var Tékkinn settur í tíu leikja bann fyrir kynþáttaníðið.
Lögmaður Kudela hefur staðfest að leikmaðurinn hafi áfrýjað úrskurðinum en verði bannið óraskað mun hann missa af leikjum með Tékkum á Evrópumeistaramótinu í sumar. Að sögn lögmannsins, sem talaði við Reuters, er Kudela vongóður um að geta fengið úrskurðinum snúið við.