Dublin missir EM-leikina í sumar

Aviva Stadium í Dublin átti að að vera einn af …
Aviva Stadium í Dublin átti að að vera einn af leikvöngum EM í sumar en nú verður ekkert af því. AFP

Ekkert verður af því að Dublin, höfuðborg Írlands, verði ein þeirra borga sem halda úrslitakeppni Evrópumóts karla í knattspyrnu á komandi sumri en þar átti að leika fjóra leiki í keppninni.

Knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, tilkynnti í dag að þeir þrír leikir sem fram áttu að fara í E-riðli keppninnar verði í staðinn leiknir í Pétursborg í Rússlandi. Þar verða því alls leiknir sjö leikir á EM í stað fjögurra eins og fyrirhugað var.

Þetta eru leikirnir Pólland - Slóvakía, Svíþjóð - Slóvakía og Svíþjóð - Pólland.

Þá verður leikur í sextán liða úrslitum keppninnar sem fram átti að fara í Dublin færður yfir á Wembley-leikvanginn í London.

Ástæðan er sú að Dublin getur ekki tryggt að áhorfendur geti nýtt minnst 30 prósent af sætum vallarins.

Eins var staðfest að Sevilla kæmi í staðinn fyrir Bilbao sem leikstaður á Spáni og þrír leikir Spánverja í riðlakeppninni verða fluttir til Sevilla. Þar er líka um E-riðilinn að ræða og hann hefur því alfarið verið fluttur frá Dublin og Bilbao til Pétursborgar og Sevilla.

Þá var staðfest að leikið yrði í München eins og fyrirhugað var. Borgaryfirvöld hafa staðfest að minnst 14.500 áhorfendum verði leyft að mæta á leiki Þjóðverja á Allianz-leikvanginum en þeir leika þar við Frakka, Portúgala og Ungverja í F-riðli keppninnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert