Samkvæmt fréttum frá Spáni er ósennilegt að Sergio Ramos verði í herbúðum Real Madríd á næsta keppnistímabili.
Nokkuð hefur verið rætt og ritað um framtíð Ramos hjá félaginu þar sem samningur hans rennur út 30. júní næstkomandi.
Diario AS greinir frá því að ekkert hafi þokast í viðræðum Real og Ramos. Líkurnar á því að Ramos fái nýjan samning hafi í raun minnkað en ekki aukist upp á síðkastið.
David Alaba er á leið til Real frá Bayern München og fær fimm ára samning. Þykir það benda til að Real hafi þá fundið leikmann til að spila stöðu miðvarðar en sá möguleiki er þó einnig fyrir hendi að Ramos verði áfram og félagið selji franska heimsmeistarann Raphael Varane.
Sergio Ramos er orðinn 35 ára gamall og hefur verið hjá Real síðan 2005 en lék áður með Sevilla.