Patrik búinn að loka markinu

Patrik Sigurður Gunnarsson.
Patrik Sigurður Gunnarsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Pat­rik Sig­urður Gunn­ars­son hélt marki sínu hreinu í 2:0-sigri Silkeborg á Viborg í dönsku B-deildinni í knattspyrnu í kvöld en liðið er nú í vænlegri stöðu í úrslitakeppninni á meðan annað Íslendingalið heltist úr lestinni.

Markvörðurinn gekk til liðs við Silkeborg að láni frá enska B-deildarfélaginu Brentford í byrjun árs og hefur nú spilað tíu leiki í Danmörku, haldið hreinu átta sinnum og aðeins fengið á sig tvö mörk. Stefán Teitur Þórðarson var einnig í byrjunarliði Silkeborg og lék allan leikinn.

Silkeborg varð með sigrinum í kvöld fyrsta liðið til að leggja topplið Viborg að velli en liðin eru bæði í vænlegri stöðu. Viborg er á toppnum með 63 stig og Silkeborg í öðru sæti með 59 stig en efstu tvö liðin fara upp um deild. Patrik var einmitt á láni hjá Viborg fyrir áramót og var því taplaus með liðinu í leikjum sínum þar.

Í þriðja sæti er Íslendingalið Esbjerg sem er nú með 52 stig og hefur ekki unnið í síðustu þremur leikjum sínum. Liðið tapaði gegn Helsingör á útivelli í kvöld, 1:0. Ólafur Kristjánsson þjálfar liðið en með því spila framherjarnir Andri Rúnar Bjarnason og Kjartan Henry Finnbogason. Andri var á varamannabekknum í kvöld en Kjartan er frá vegna meiðsla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert