Félögin geta ekki hætt við ofurdeildina

Florentino Pérez.
Florentino Pérez. AFP

Flor­ent­ino Pér­ez, for­seti spænska íþrótta­fé­lags­ins Real Madrid, heldur því fram að ofurdeildin svokallaða sé hvergi nærri dauð, enda hafi stofnfélög hennar gert bindandi samninga sem ekki sé hægt að rifta.

Tólf af stærstu knattspyrnufélögum Evrópu ætluðu að stofna nýja ofurdeild sem níu af þeim félögum hafa síðan ákveðið að taka ekki þátt í vegna mikillar óánægju hjá stuðningsmönnum víðs vegar um Evrópu. Real Madríd er eitt þeirra félaga sem hefur ekki formlega dregið sig til baka og segir Pérez að það sé einfaldlega ekki hægt.

„Ég þarf ekki að útskýra hvað það þýðir að skrifa undir bindandi samning,“ sagði hann við spænska dagblaðið AS. „Félögin geta ekki bara hætt.“

„Sum þeirra hafa sagst ætla að hætta vegna þrýstings en þetta verkefni er ekki dautt. Ofurdeildin lifir og við ætlum að gefa okkur nokkrar vikur til að íhuga og ræða málin á meðan við erum beittir ofbeldi af fólki sem vill notfæra sér okkar verkefni,“ sagði vígreifur Pérez sem kallar ekki allt ömmu sína.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert